Hún var hröð niðurleiðin hjá danska stjörnufréttamanninum Jeppe Nybroe, hjá danska sjónvarpinu. Fyrir nokkrum mánuðum var hann einn af virtustu fréttamönnum Danmerkur. Í dag er hann atvinnulaus og það eru birtar háðslegar myndir af honum á You Tube.
Jeppe Nybroe varð uppvís af því að falsa myndir af brottflutningi danskra hermanna frá Írak í sumar. Hann birti þá uppistand með sjálfum sér og myndir af bílalest sem hann sagði að væri að flytja síðustu dönsku hermennina frá Írak. Í raun var Nybroe í Kúveit og bílalestin á leið inn í Írak til þess að sækja Danina.Nybroe hefur einnig verið sakaður um að hafa notað sömu sprengingarnar og skothvellina aftur og aftur í sömu frétt, til þess að hún yrði áhrifameiri. Fyrst þegar þetta komst upp var Nybroe sendur í frí. Viðbrögðin í Danmörku voru hinsvegar slík að Danska sjónvarpið komst að þeirri niðurstöðu að honum yrði aldrei treyst aftur.
Ferli hans hjá sjónvarpinu lauk því síðastliðinn mánudag.