Hagnaður Byrs sparisjóðs nam rúmum 4,3 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 698,6 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Þetta er 521,7 prósenta aukning á milli ára. Byr varð til með sameiningu Sparisjóðs vélstjóra og Sparisjóðs Hafnarfjarðar 1. desember í fyrra.
Í uppgjör sparisjóðsins kemur fram að vaxtatekjur hafi numi rétt rúmum fimm milljörðum króna á tímabilinu, sem er 42,6 prósenta aukning frá sama tíma í fyrra. Vaxtagjöld námu á sama tíma rétt tæpum 4,2 milljörðum króna, sem er 49,4 prósenta aukning frá fyrri hluta síðasta árs.
Þá námu hreinar rekstrartekjur tæpum 6,7 milljörðum króna samanborið við rúma 1,6 milljarða í fyrra. Aukningin nemur 306,8 prósentum. Á móti námu rekstrargjöld rúmum 1,3 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins en það er 89,4 prósenta aukning frá síðasta ári. Almennur rekstrarkostnaður jókst um 127,2 prósent en launakostnaður um 56 prósent á tímabílinu.
Arðsemi eigin fjár var 62,4 prósent á ársgrundvelli. Eigið fé nam 18,2 milljörðum króna í júnílok en það er 4,3 milljörðum meira við áramótin. Eiginfjárhlutfall nemur 14,6 prósentum.