Fornleifafræðingar í Egyptalandi hafa uppgötvað mennskt fótspor sem gæti verið það elsta sem fundist hefur. Sporið fannst á steini í Siwa eyðimerkurvininni í vestari eyðimörk landsins. Það hefur verið stigið í leðju sem síðan hefur orðið að steini.
Zahi Hawass, yfirmaður fornleifaráðs Egyptalands sagði fótsporið geta verið allt að tveggja milljón ára gamalt. Hann sagði að þetta gæti verið mikilvægasti fornleifafundur landsins.
Vísindamenn eru að rannsaka kolefni í plöntum sem fundust í steininum til þess að komast að nákvæmum aldri hans.