Samfara síhækkandi launum leikmanna í ensku knattspyrnunni hefur miðaverð á leikina hækkað verulega. Breskir knattspyrnuáhugamenn kvarta sáran og félögin sjálf eru að skoða málið, því þau vilja ekki að fækkun áhorfenda komi niður á stemningunni á leiknum.
Nær sumarlangri bið knattspyrnuþyrstra lauk í gær þegar bolta var fyrst sparkað í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þennan veturinn. Meðan beðið var skiptu miklar fjárhæðir um hendur um leið og leik menn færðu sig milli liða. Á sama tíma hafa laun þeirra hækkað og engar vísbendingar um að það breytist. Richard Scudamore, framkvæmdastjóri úrvalsdeildarinnar, spáir því að innan þriggja ára verði vikulaun þeirra í deildinni sem mest fái tvö hundruð þúsund pund, jafnvirði tæplega tuttugu og sjö milljóna króna. Það er um níu milljónum króna meira en það sem mest er greitt í laun nú.
Þetta þýðir að það verður dýrara fyrir stuðningsmenn að fylgjast með sínum mönnum á skjánum og enn dýrara að fara á völlinn.
Duncan Adams, knattspyrnuáhugamaður sem skrifað hefur bók um fjármál félaga í úrvalsdeildinni, segir að þegar horft sé til þess að bestu sæti á heimavelli Arsenal kosti 94 pund sem sé meira en kosti að fljúga á leik hjá Barcelona frá Engalandi þá sé eitthvað að.
Miðaverð mun almennt vera á bilinu þrjátíu til hundrað pund, jafnvirði fjögur til þrettán þúsund króna. Það þykir mörgum Breta dýrt.
Aðsókn á leiki fór að minnka fyrir fimm árum en jókst aftur nokkuð í fyrr án þess þó að ná sömu hæðum og 2002 þegar hátt í fjórtán milljón manns fóru á völlinn á Englandi. Sum lið óttuðust það að auð sæti yrðu áberandi í beinum útsendingum þennan veturinn fækkaði gestum enn frekar. Því ákváðu tólf lið að halda sama verði á miðum áfram en Wigan fór þá leið að lækka verð á miðum.
Það segir talsmaður Arsenal ef til vill eðlilegt. Mörg lið neðarlega í deildinni hafi að hans mati verðlagt sig of hátt. Þegar horft sé til þess hvar liðin hafi lent í deildinni og aðstöðu sem sé ekki eins góð hjá Arsenal þurfi að spyrja hvort þetta sé of dýrt. Það þurfi þessi lið að réttlæta og færa rök fyrir.