Suður-Kóreska fólkið sem er í gíslingu hjá talibönum í Afganistan tilheyrir ekki neinni hjálparstofnun. Þau eru kornungir reynslulausir trúboðar frá einni stærstu fríkirkju í Suður-Kóreu. Tilgangurinn með förinni var að kristna talibana. Talibanar hafa þegar myrt tvö þeirra.
Fríkirkjurnar í Suður-Kóreu eru þekktar fyrir ákafa sem jaðrar við ofstæki í trúboði sínu erlendis. Presturinn í viðkomandi kirkju Park-Euon-jo lét allar aðvaranir sem vind um eyru þjóta þegar hann sendi hópinn af stað.
Þegar komið var til Kabúl voru aðvaranir suður-kóreska sendiráðsins sömuleiðis látnar sem vind um eyru þjóta. Hópurinn tók sér lúxusrútu á leigu og ók sem leið lá inn á yfirráðasvæði talibana. Japanska sjónvarpið hefur birt myndir af því þegar fólkið fór inn í yfirgefið bænahús múslima og söng þar kristna sálma. Svo komu talibanar.Óvíst er hvort nokkurt þeirra sleppur lifandi úr þessum kristniboðsleiðangri.