Scanvaegt International, dótturfyrirtæki Marel Food Systems, hlaut í gær heiðursverðlaun Friðriks níunda Danakonungs fyrir framúrskarandi árangur í útflutningsstarfi.
Það var Hinrik prins, eiginmaður Margrétar Þórhildar Danadrottningar, sem afhenti forstjórum Scanvaegt, Lárusi Ásgeirssyni og Erik Steffensen, heiðursverðlaunin við konunglega athöfn í Fredensborgarhöll.
Heiðursverðlaun Friðriks níunda konungs eru útflutningsverðlaun sem afhent eru árlega. Lofaði Hinrik prins árangur Scanvaegt í útflutningi en yfir 90 prósent af starfsemi fyrirtækisins er nú á mörkuðum utan Danmerkur, að því er segir í tilkynningu frá félaginu.
Lárus Ásgeirsson segir þetta mikinn heiður og góða viðurkenningu á því öfluga starfsi sem Scanvaegt hafi unnið á alþjóðamarkaði síðustu ár. Verði það hvatning til áframhaldandi vaxtar á heimsvísu.
„Þessi viðurkenning er að auki mjög skemmtilegt dæmi um alþjóðavæðinguna og útrás íslenskra fyrirtækja, því það er ekki á hverjum degi sem dótturfyrirtæki íslensks félags fær konungleg útflutningsverðlaun í Danmörku," segir hann.