Actavis hefur markaðssett þvagfæralyfið Finasteride í 14 Evrópulöndum og er sala lyfsins nú þegar hafin. Actavis setti lyfið á markað í Þýskalandi, Bretlandi, Hollandi og Danmörku um leið og einkaleyfið rann út.
Í tilkynningu frá lyfjafyrirtækinu segir að það hafi markaðssett vel á annað hundrað samheitalyfja á hina ýmsu markaði það sem af er ári. Er stefnt að því að markaðssetja rúmlega 500 lyf á þessu ári.
Actavis selur Finasteride undir eigin merkjum í 12 löndum beggja vegna Atlandsála. Það er sömuleiðis selt til þriðja aðila í átta löndum, þar sem það er markaðssett í umbúðum annarra lyfjafyrirtækja.
Finasteride er í töfluformi og samheitalyf frumlyfsins Proscar frá frumlyfjafyrirtækinu MSD. Það er notað við góðkynja stækkun í blöðruhálskirtli.
Lyfið var þróað á Íslandi, frásogsprófanir voru gerðar í Suður-Afríku og töflurnar eru framleiddar á Indlandi, að því er segir í tilkynningunni.