Íslenska hagkerfið er viðkvæmt og það líklegasta af 25 nýmörkuðum til að verða fyrir skakkaföllum vegna slæmra ytri skilyrða. Hagkerfi Ísraels, Kólumbíu, Chile og Argentínu standa hins vegar á traustum grunni. Þetta kemur fram í skýrslu bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers sem ísraelska dagblaðið Haretz birti í gær.
Skýrsla bankans nefnist „Sverð Demóklesar" en titillinn er fenginn úr grísku sögninni um sverðið sem hékk á einu hári yfir höfði Grikkjans Demóklesar, sem hafði sætaskipti við Díónýsus konung í einn dag.
Í mælingu bankans þýðir lág stigagjöf litla áhættu af utanaðkomandi þáttum en há stigagjöf merkir að áhættan sé mikil. Ísland var með 89 stig en Ísrael 0.
Hvað Ísrael varðar hefur Harets eftir skýrslunni að þar hafi verið viðskiptajöfnuður upp á fimm prósent af landsframleiðslu í fyrra. Sé erlend gjaldeyrisstaða landsins góð og hafi stjórnvöldum tekist að lækka erlendar skuldir. Hins vegar er bent á að pólitískur óstöðugleiki og lækkandi stýrivaxtastig sé áhyggjuefni auk þess sem útlit sé fyrir aukna eftirspurn eftir innfluttri vöru.