Í kjölfar samþættingar hjá félögum í eigum Marel hf. hefur stjórn félagsins ákveðið að núverandi rekstur Marel á Íslandi verði skilinn frá móðurfélaginu, Marel hf. og um hann stofnað nýtt dótturfélag, Marel ehf. Dótturfélagið verður sjálfstæð viðskiptaeining innan samstæðunnar við hlið AEW Delford, Carnitech, framleiðslufyrirtækis í Slóvakíu og Scanvaegt. Samhliða þessu verður nafni móðurfélagsins breytt úr Marel hf. í Marel Food Systems hf.
Breytinguna þarf að samþykkja á hluthafafundi, sem verður boðaður fljótlega, að því er segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Gert er ráð fyrir því að breytingar taki gildi í nýársdag á næsta ári.
Forstjóri móðurfélagsins, Marel Food Systems hf. er Hörður Arnarson sem verið hefur forstjóri Marel frá 1999, en hann hóf störf hjá félaginu árið 1985. Aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri sölunets Marel Food Systems verður Lárus Ásgeirsson, en hann hefur undanfarið ár verið annar tveggja forstjóra Scanvaegt International A/S, dótturfélags Marel. Erik Steffensen mun áfram gegna stöðu forstjóra í Scanvaegt.