Novator, félag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur gert yfirtökutilboð í gegnum nýstofnað eignarhaldsfélag, Novator eignarhaldsfélag ehf. í allt hlutafé Actavis Group hf. í A-flokki sem ekki var þegar í eigu félaga tengdum tilboðsgjafa eða í eigu Actavis Group hf.
Félög tengd Novator eiga alls 296.379.823 hluti í A-flokki hlutafjár Actavis Group hf., sem nemur um 38,5% af útgefnu hlutafé í A-flokki og atkvæðisrétti í Actavis Group hf, að því er segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Í tilboðinu segir að tilboðsgjafi afsali sér allri ábyrgð vegna nákvæmni eða áreiðanleika.
Tilboðið tekur ekki til hluta sem Actavis gaf út í desember í fyrra. Þeir eru án atkvæðisréttar, innleysanlegir, hafa forgangsrétt og eru ekki skráðir í OMX Nordic Exchange.
Tilboð Novator hljóðar upp á 0,98 evrur á hlut. Það jafngildir 85,23 krónum á hlut á gengi evru þann 9. maí síðastliðinn.