Eignarhaldsfélagið Arev og Icebank hafa stofnað nýjan einkafjármagnssjóð, Arev N1. Sjóðurinn hefur allt að þrjá milljarða króna til fjárfestinga í íslenskum neytendavörufyrirtækjum, aðallega á sviði heildsölu, smásölu og þjónustu. Þetta er eini sjóðurinn með þessu sniði hérlendis, sem fjárfestir í neytendavörufyrirtækjum.
Í tilkynningu frá eignarhaldsfélaginu kemur fram að sjóðurinn muni fjárfesta að jafnaði 50 til 200 milljónum króna í fyrirtækjum sem uppfylla skilyrði sjóðsins.
Arev verðbréf hefur ráðgjöf og eignastýringu fyrir sjóðinn en innan fyrirtækisins er talsverð þekking og reynsla á sviði greininga og reksturs smásölufyrirtækja.
Haft er eftir Elínu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Arev verðbréfa, að sérstök áhersla verði á virka þátttöku, stefnumótun og innleiðingu og verði starfað náið með stjórnendum þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn fjárfesti í.
Þá kemur enfremur fram að Arev N1 er byggður á grunni eignasafns sem Eignarhaldsfélagið Arev hefur byggt upp síðustu ár og hefur hann fjárfest í sex íslenskum fyrirtækjum. Þar á meðal eru Áltak, Sól, Vínkaup, Yggdrasill og Lífsins tré.