Tónlist

Umsóknarferli hljómsveita og listamanna hafið

Ultra mega technobandið Stefán komu fram í fyrsta skipti á Airwaves 2006.
Ultra mega technobandið Stefán komu fram í fyrsta skipti á Airwaves 2006.

Aðstandendur tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves, sem haldin verður í miðborg Reykjavíkur í níunda sinn daganna 17. til 21. október, eru byrjaðir að taka við umsóknum frá innlendum hljómsveitum og listamönnum sem vilja koma fram á hátíðinni. Líkt og undanfarin ár munu yfir eitt hundrað íslenskir flytjendur koma fram á Airwaves 2007. Markmið hátíðarinnar verður sem endranær að bjóða upp á það ferskasta og skemmtilegasta sem er að gerast í íslenskri tónlist - og gott úrval af hljómsveitum og listamönnum sem ekki hafa áður komið fram á Airwaves. Ungar og upprennandi sveitir, sem og þær fræknari og reynslumeiri eru hvattar til að senda inn umsókn.

Meðal þeirra 30 flytjenda sem komu fram á Airwaves í fyrsta sinn í fyrra má nefna Lay Low, Ólöfu Arnalds, Sprengjuhöllina, Hjaltalín og Ultra Mega Technobandið Stefán - sem vakið hafa verðskuldaða athygli innanlands sem utan á síðustu misserum.

Til að sækja um að koma fram á Iceland Airwaves 2007 þarf að ná í sérstakt eyðublað á www.icelandairwaves.com sem finna má undir liðnum 'Press/Industry', fylla út, prenta og skila til Hr. Örlygs ásamt fylgigögnum. Þau gögn sem fylgja skulu umsókn eru a) diskur með tónlist b) diskur með upplýsingatexta um flytjanda ásamt mynd.

Umsóknarfrestur er til 15. júlí. Hr. Örlygur vill leggja áherslu á að ekki er tekið við umsóknum eftir þann tíma. Þeir sem áður hafa sótt um að spila á Airwaves verða að fara í gegnum umsóknarferlið á nýjan leik - sem og þeir sem að undanförnu hafa sent inn tónlist og erindi um að fá að koma fram á hátíðinni.

Vert er að taka fram að byrjað verður strax að fara yfir þær umsóknir sem berast. Þar sem bæði innlendir og erlendir listamenn verða staðfestir og kynntir til leiks á dagskrá Iceland Airwaves 2007 á næstu vikum og mánuðum - eru þeir flytjendur sem sjá sér fært til að senda umsóknir í apríl, maí og júní hvattir til að láta slag standa og gera það.

Umsækjendum verður svarað eins fljótt og auðið er, þó ekki síðar en 15. september. Það eru starfsmenn Hr. Örlygs - þeir Eldar Ástþórsson, Egill Tómasson, Diljá Ámundadóttir og Þorsteinn Stephensen - sem fara yfir umsóknirnar og taka síðan ákvörðun um hverjir koma fram á Iceland Airwaves 2007. Þeim til aðstoðar er óformleg ráðgjafanefnd úr tónlistarbransanum.

Bein slóð á eyðublaðið og frekari leiðbeiningar er: http://www.icelandairwaves.com/page.asp?pageID=58








Fleiri fréttir

Sjá meira


×