Kaupþing jók við hlut sinn í norska trygginga- og fjármálafyrirtækinu Storebrand í morgun og er nú komið með 10,4 prósent hlutabréfa í félaginu. Bankinn fékk heimild hjá norskum yfirvöldum í morgun til að kaupa allt að 20 prósenta hlut í Storebrand.
Kaupþing keypti hlutinn á 94 norskar krónur á hlut. Það svarar til tæplega 1.038 íslenskra króna og nemur kaupverðið 2,6 milljörðum íslenskra króna.
Norsk lög meina erlendum aðilum að eiga meira en 10 prósenta hlut í norsku fjármála- og tryggingafélagi án sérstakrar heimildar.
Gengi Storebrand tók kipp í morgun og hækkaði um 7,5 prósent í kauphöllinni í Osló í Noregi eftir að greint var frá því að Kaupþingi hefði verið veitt heimild til að auka við hlutafjáreign sína í norska félaginu.