Færeyska olíuleitarfélagið Atlantic Petroleum skilaði tapi upp á rúma 8,1 milljón danskra króna, jafnvirði rétt rúmra 96 milljóna íslenskra króna, á síðasta ári. Þetta er nokkru minna tap en árið áður en þá tapaði félagið tæplega 10,4 milljónum danskra króna, sem jafngildir 123,3 milljónum íslenskra króna.
Í uppgjöri félagsins kemur fram að rekstrartap Atlantic Petroleum á árinu hafi numið tæpum 11,5 milljónum danskra króna, tæplega 136,37 milljónum íslenskra króna, samanborið við tap upp á 11,8 milljónir danskra króna, 139,9 milljónir íslenskra króna, árið á undan.
Rekstrartapið var nokkru meira en spáð var en gert hafði verið ráð fyrir tapi upp á 10 milljónir danskra króna, 118,6 milljónir íslenskra króna, á árinu.
Tap félagsins á fjórða ársfjórðungi í fyrra minnkaði talsvert á milli ára. Tapið nam tæplega 1,5 milljónum danskra króna, tæpum 17,8 milljónum íslenskra króna, samanborið við tap upp á rétt rúmlega 7,3 milljónir danskra króna, 86,5 milljónir íslenskra króna, árið 2005.
Í uppgjörinu segir að olíuleit á Chestnut og Ettrick-svæðunum hefjist á seinni helmingi þessa árs og fyrri helmingi næsta árs. Er gert ráð fyrir ívið hærri kostnaði við framkvæmdina á Chestnut-svæðinu en fyrri áætlanir hljóðuðu upp á. Gert var ráð fyrir að kostnaði upp á 45 milljónir danskra króna, jafnvirði rúmlega 533 milljóna íslenskra króna. Nú er hins vegar búist við að kostnaðurinn verði allt að 58 milljónir króna, 687,7 milljónir íslenskra króna.