Fyrrum NBA leikmaðurinn Dennis Johnson sem gerði garðinn frægan með Seattle Supersonics og Boston Celtics á níunda áratugnum er látinn. Johnson var þjálfari Austin Toros í æfingadeildinni í NBA og var bráðkvaddur á æfingu liðsins í dag. Hann var aðeins 52 ára gamall.
Johnson varð NBA meistari með liði Seattle árið 1979 og var þá kjörinn besti leikmaður úrslitanna. Hann gekk svo í raðir Boston Celtics og vann þar meistaratitla með liðinu árin 1984 og 1986 þar sem hann lék með mönnum eins og Larry Bird og Kevin McHale. Johnson spilaði fimm sinnum í stjörnuleiknum í NBA og skoraði að meðaltali 14 stig í leik á ferlinum.