Leikur Memphis Grizzlies og LA Lakers verður sýndur beint á NBA TV sjónvarpsstöðinni klukkan eitt eftir miðnætti í nótt. Lið Lakers hefur verið á góðri siglingu undanfarið þrátt fyrir meiðsli lykilmanna og stöðvaði síðast ótrúlega sigurgöngu Dallas Mavericks.
Þess má geta að á körfuboltasíðunni hér á Vísi má sjá leikjaplanið á NBA TV næstu daga og vikur á hægri spássíu, en þarna er á ferðinni frábær þjónusta fyrir körfuboltaþyrsta þar sem boðið er upp á beina útsendingu frá NBA deildinni á hverju kvöldi.
Leikirnir eru svo endursýndir nokkrum sinnum daginn eftir og auk þess er á dagskrá fjöldi skemmtilegra þátta um sögu deildarinnar og gamlir klassískir leikir sýndir daglega. NBA TV er í boði á Fjölvarpinu á Digital Ísland.