Viðskipti innlent

Uppsetning kerfisins hefst í haust

Sun Zheng Yang, fulltrúi kínverska fjarskiptafyrirtækisins Huawei, og Árni Pétur Jónsson, forstjóri Teymis, handsala samning um kaup á tæknibúnaði.
Sun Zheng Yang, fulltrúi kínverska fjarskiptafyrirtækisins Huawei, og Árni Pétur Jónsson, forstjóri Teymis, handsala samning um kaup á tæknibúnaði. MYND/GVA

Vodafone hefur gert samning við kínverska fjarskiptafyrirtækið Huawei um kaup á tæknibúnaði vegna uppbyggingar Voda­fone á langdrægu GSM-farsímakerfi. Árni Pétur Jónsson, forstjóri Teymis, móðurfélags Vodafone, og Sun Zheng Yang, fulltrúi Huawei, skrifuðu undir samninginn í utanríkis­ráðuneytinu í gær.

Uppsetning kerfisins hefst í október og er áætlað að henni ljúki næsta sumar. Reykjanes verður fyrst í röðinni og verður kerfið samstundis virkt þar. Í heild verða fjörutíu sendar settir upp meðfram strandlengjunni, hringinn í kringum landið, auk þess sem nokkrir sendar verða settir upp á hálendinu.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Teymis, segir nýjungina verða mikla búbót fyrir GSM-notendur, ekki síst fyrir íbúa lítilla sjávarplássa, trillukarla og aðra sjófarendur og ferðamenn á fáförnum slóðum á hálendinu. Drægni sendanna sé um fjórum til fimm sinnum meiri en venjulegra GSM-senda, allt upp í hundrað kílómetrar.

Hingað til hefur einungis NMT-kerfi Símans dugað á þeim slóðum sem GSM-farsímakerfið náði ekki til. NMT-kerfið verður lagt niður innan tveggja ára. Síminn mun þá taka upp svokallað CDMA 450 kerfi. Sérstakan síma þarf til að nota það. Þess gerist ekki þörf með hið nýja farsímakerfi Vodafone. „Við tókum ákvörðun um að prjóna við núverandi kerfi. Við trúum því að fólk vilji nota eitt símtæki alls staðar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×