Tónlist

Norrænt stúlknaband safnar fé fyrir bágstadda

Birgitta Haukdal hefur í félagi við þrjá aðra Íslendinga stofnað samtökin Navia, Norrænu kraftaverkasamtökin. Markmið þeirra er að hjálpa þeim sem minna mega sín í heiminum.Fréttablaðið/hörður
Birgitta Haukdal hefur í félagi við þrjá aðra Íslendinga stofnað samtökin Navia, Norrænu kraftaverkasamtökin. Markmið þeirra er að hjálpa þeim sem minna mega sín í heiminum.Fréttablaðið/hörður

„Okkar draumsýn er að láta gott af okkur leiða. Það er náttúrlega draumur ef maður getur unnið við það að hjálpa öðrum,“ segir söngkonan Birgitta Haukdal, sem vinnur nú með samtökunum Navia í félagi við þrjá aðra Íslendinga. Navia stendur fyrir The Nordic Miracle Group, eða Norrænu kraftaverkasamtökin. Markmiðið er að fólk á Norðurlöndunum taki höndum saman um að hjálpa þeim sem minna mega sín í heiminum.

Að samtökunum standa auk Birgittu þau Bjarney Lúðvíksdóttir, sem áður starfaði hjá Eskimo og Casting, Trausti Bjarnason, sem getið hefur sér gott orð sem lagahöfundur í Eurovision, og Svanhvít Aðalsteinsdóttir sem starfar hjá Útflutningsráði.

Að sögn Birgittu er hugmyndin með Navia að koma af stað samnorrænu verkefni sem leiði gott af sér, safna peningum fyrir þá sem þurfa á því að halda. Tónlistin verður þar í aðalhlutverki og eitt af verkefnunum verður að stofna norrænt stelpnaband. Liðsmenn þess verða frá öllum Norðurlöndunum, einn frá hverju landi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi.

Ekki hefur enn verið gengið nákvæmlega frá því hvernig stúlkurnar verða valdar í bandið en unnið er að því í samstarfi við danskan leikstjóra. Búist er við því að tökur hefjist seint á þessu ári eða snemma á því næsta.

Allt í allt verða þrettán sjónvarpsþættir sýndir um stúlknabandið nýja, sem mun heita Navia. Stúlknasveitin mun að líkindum ferðast um og syngja og spila til að safna fé fyrir bágstadda. Það verður meðal annars gert með framlögum frá fyrirtækjum.

Á heimasíðu samtakanna, Navia.is, má sjá að sterkir aðilar hafa gengið til liðs við Navia, Sjónvarpið, True North, Rauði krossinn og Iceland Express svo einhverjir séu nefndir. Birgitta og aðstandendur verkefnisins fást ekki til að segja mikið um næstu skref en segja stórra tíðinda að vænta. Vitað er til þess að þau hafa fundað stíft síðustu mánuði, meðal annars um öll Norðurlöndin og skýrir það aðkomu Iceland Express að verkefninu.

Birgitta hefur til þessa ekki verið áberandi á öðrum sviðum en tónlistinni. Hún segist spennt fyrir að prófa eitthvað nýtt. „Já, tónlistin hefur átt hug minn síðustu tíu árin eða svo en meðfram því hef ég líka verið að læra. Þetta verkefni var bara svo spennandi að ég varð að vera með. Það er svo frábært að geta starfað við eitthvað sem nýtist öðrum. Svo er bara vonandi að þetta verði svo flott verkefni að það haldi áfram þegar við erum öll farin yfir móðuna miklu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×