Tónlist

Nhi og bau

Ngo Hong Quang leikur á víetnömsk hljóðfæri og kynnir þarlenda tónlist.
Ngo Hong Quang leikur á víetnömsk hljóðfæri og kynnir þarlenda tónlist. Fréttablaðið/hörður

Víetnamski tónlistarmaðurinn Ngo Hong Quang kynnir hlustendum nýjan hljóðheim á tónleikum í Iðnó í kvöld. Quang útskrifaðist frá Tónlistarháskólanum í Hanoi vorið 2006 eftir tólf ára nám á hefðbundin víetnömsk hljóðfæri.



Aðalhljóðfæri hans er tveggja strengja fiðla, nhi, en auk þess spilar hann á eins strengs hljóðfæri, bau, og trommur. Í raun getur hann spilað á hvaða hefðbundið víetnamskt hljóðfæri sem er auk þess sem hann syngur vel. Meðan Quang stundaði nám við Tónlistarháskólann í Hanoi hlaut hann árlega viðurkenningu sem besti nemandinn á hefðbundin hljóðfæri og þegar hann útskrifaðist í fyrravor fékk hann viðurkenningu sem besti nemandi skólans. Quang starfar nú sem kennari við Tónlistarháskólann í Hanoi.



Quang hefur komið fram við fjölmörg tækifæri í Víetnam auk þess sem hann hefur haldið tónleika í Suður-Kóreu og Taílandi. Á ferð sinni til Evrópu nú í sumar mun hann halda nokkra tónleika í Hollandi.

Á tónleikunum í Iðnó mun Quang flytja tónlist fyrir hefðbundin víetnömsk hljóðfæri og einnig kynna hljóðfæri sín fyrir áheyrendum.

Tónleikarnir hefjast kl. 20.30 en húsið opnar hálftíma fyrr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×