Handbolti

Fylkir missir sína sterkustu menn

Heimir Örn er hér í leik með Fylki í vetur.
Heimir Örn er hér í leik með Fylki í vetur. fréttablaðið/e. ól.

Nú er ljóst að Fylkir mun missa sína sterkustu leikmenn en liðið féll nú á vikunum úr DHL-deildinni. Ekki hefur enn verið ákveðið hvort Fylkir ætli að tefla fram liði í 1. deild karla á næsta ári. Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að Heimir Örn Árnason, Guðlaugur Arnarsson og Hlynur Morthens gætu vel verið á leið til Stjörnunnar ásamt ÍR-ingnum Ragnari Má Helgasyni.

Heimir sagði við Fréttablaðið í gær að það væri ljóst að hann yrði ekki áfram með Fylki. „Ég hef átt í viðræðum við nokkur félög, þeirra á meðal Stjörnuna," sagði hann. Karl Sigurðsson er formaður handknattleiksdeildar Fylkis og hann segir að forráðamenn deildarinnar velti nú fyrir sér sínum kostum.

„Við höfum rætt þann möguleika í okkar hópi að tefla fram liði á næsta tímabili og erum að skoða þann möguleika. Ætli það séu ekki helmingslíkur á því en til þess þyrftum við auðvitað að finna fjárhagslegan flöt á því," sagði Karl.

Hann segir að flestir leikmannasamningar liðsins séu hvort eð er útrunnir. „Það er þó hópur stráka sem er tilbúinn að spila með liðinu á næsta ári. Við gerum þó fastlega ráð fyrir því að sterkustu leikmenn liðsins fari annað og skilst mér að þeir séu að skoða hvað þeim standi til boða."

Fylkir lenti í sjöunda og næstneðsta sæti DHL-deildarinnar.- esá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×