Þótt forsætisráðherra Breta, Tony Blair, hafi biðlað til bresku pressunnar að láta parið unga í friði létu blöðin gamminn geisa í gær.
Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær hélt News of the World því fram að hirðin hefði sett Vilhjálmi stólinn fyrir dyrnar og sagt að hún hefði ekki efni á „annarri Díönu“.
The Sun greinir frá því að Kate og Vilhjálmur hafi ákveðið að slíta sambandinu í miklu táraflóði eftir skíðaferð í svissnesku Ölpunum.
„Kate var aldrei sátt við að Vilhjálmur væri að bjóða stelpum í heimsókn til sín eftir næturbrölt. Og Vilhjálmur var ekki reiðubúinn til að fórna því frelsi sem hann fær í herþjónustunni,“ sagði náinn vinur parsins sem tók þó skýrt fram að Kate og Vilhjálmur yrðu áfram nánir vinir.

„Ég sá Kate taka símann út í bíl á miðvikudaginn og það var alveg greinilegt að þetta var Villhjálmur,“ sagði samstarfsmaður Kate.
Hann segir jafnframt að stúlkan hafi ráfað um bílastæðahúsið, augljóslega í miklu áfalli eftir að henni varð ljóst að fjögurra ára samband hennar við væntanlegan kóng Bretlands var farið í vaskinn.
Blaðið tekur undir sögusagnir The Sun um að Vilhjálmur hafi viljað meira svigrúm áður en hann tækist á við konunglegar skyldur sínar. Kate hafi hins vegar verið reiðubúin til að ganga inn kirkjugólfið.

Þar er haft eftir nánum vinum að almúga-bakgrunnur Kate hafi skipt sköpum og það að móðir hennar hafi verið flugfreyja hafi farið ákaflega illa í hirðina. Vinir Vilhjálms hafi meðal annars gert óspart grín að flugfreyju-bakgrunninum og ekki síst hvernig Kate talaði.
Daily Mail slær síðan botninn í umfjöllunina. Blaðið heldur því fram að Vilhjálmur hafi svarið sig í ættina því hann hafi átt í ástarsambandi við ekki bara eina stúlku heldur tvær á meðan Kate barðist fyrir að halda ástarævintýrinu gangandi.
Vilhjálmi hafi tekist með herkjum að halda nöfnum þeirra leyndum en við aðra þeirra hefur sambandið staðið yfir í fjóra mánuði. Þar er jafnframt greint frá því að Vilhjálmur sé þekktur á börum Lundúna-borgar fyrir sitt flöktandi auga en Middleton hafi alltaf vitað af því. Það hafi jafnvel verið hluti af samningnum um að þau væru saman.