Lífið

New York í fermingargjöf

Heiðdís Pétursdóttir fær ferð til New York í fermingargjöf frá foreldrum sínum.
Heiðdís Pétursdóttir fær ferð til New York í fermingargjöf frá foreldrum sínum. Fréttablaðið/Anton
Heiðdís Pétursdóttir heldur stærðarinnar fermingarveislu heima og langar mest í gjaldeyri í fermingargjöf.

Fermingarundirbúningurinn í kirkjunni hefur staðið síðan í haust og leggst vel í Heiðdísi Pétursdóttur, sem fermist í Árbæjarkirkju 5. apríl næstkomandi.

„Ég fermist af trúarlegum ástæðum, en síðan finnst mér líka gaman að fá eigin dag þar sem fjölskyldan er samankomin,“ segir Heiðdís.

Þrátt fyrir að gjafirnar séu ekki aðalatriðið að sögn Heiðdísar langar hana mest í gjaldeyri til að nota þegar hún fer til New York í sumar.

„Frændi minn sem býr í New York kemur hingað til að fermast með mér. Síðan fer ég til þeirra í sumar og fæ ferðina í fermingargjöf frá foreldrum mínum,“ segir Heiðdís brosandi og hlakkar mikið til.

Kjóllinn er fyrir löngu kominn á herðatré inn í skáp og að sögn Heiðdísar taka allir í fjölskyldunni þátt í að gera daginn sem eftirminnilegastan fyrir hana.

„Eldri systir mín setur upp á mér hárið og málar mig. Síðan verða myndirnar teknar hérna heima,“ segir Heiðdís sem hefur boðið heim 70 gestum, full tilhlökkunar fyrir stóra daginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×