Tónlist

Björk hefur fengið nóg

Björk Guðmundsdóttir mun spila á tónlistarhátíð í Toronto í Kanada í september.
Björk Guðmundsdóttir mun spila á tónlistarhátíð í Toronto í Kanada í september.

Í nýlegu viðtali á heimasíðu MTV segist Björk Guðmundsdóttir vera eins og margir aðrir óhress með gang mála í heiminum.

„Þar sem ég er tónlistarkona vildi ég tala fyrir hönd fólksins á götunni sem er yfirhöfuð frekar fúlt,“ segir Björk Guðmundsdóttir í viðtali við MTV. „Ég er bara ein af þessum röddum og það að einhver eins og ég sé búinn að fá nóg sýnir þá erfiðu tíma sem við lifum á.“

Björk segist hafa orðið fyrir miklum áhrifum af heimsókn sinni til bæjar í Indónesíu þar sem 180 þúsund manns fórust í tsunami-flóðunum gríðarlegu. „Þau urðu að breyta golfvelli í fjöldagröf. Og lyktin ... kom líklega mest á óvart. Maður gat fundið lyktina af dauðanum ári eftir atburðina,“ sagði hún.

Björk gefur út sjöttu hljóðvers­plötu sína Volta 7. maí og mun spila víða um heim á þessu ári. Hún verður aðalnúmerið ásamt bandarísku rokksveitinni The Smashing Pumpkins, sem er byrjuð aftur eftir nokkurra ára hlé, á Virgin-tónlistarhátíðinni í Toronto sem verður haldin 8.-9. september. Virgin Group, fyrirtæki Richards Branson, er styrktaraðili hátíðarinnar. Á meðal fleiri þekktra nafna á hátíðinni eru The Killers, Interpol, Amy Winehouse og Jamie T.

Eins og Fréttablaðið greindi frá á dögunum mun Björk spila á styrktartónleikum á Nasa 1. apríl nk. og 9. apríl heldur hún síðan stóra tónleika í Laugardalshöll með hljómsveit sinni. Eftir það mun hún spila á hinum ýmsu tónlistarhátíðum, þar á meðal á Hróarskeldu, Glastonbury og Coachella.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×