Tónlist

Himneskur svanasöngur

Kammerkórinn Carmina flytur stórvirki endurreisnartónmenntanna um helgina.
Kammerkórinn Carmina flytur stórvirki endurreisnartónmenntanna um helgina.

Kammerkórinn Carmina frumflytur Requiem eða Sálumessu eftir spænska endurreisnartónskáldið Tomás Luis de Victoria á tónleikum í Kristskirkju um helgina.

Victoria var fremsta tónskáld Spánverja á 16. öld og sálumessan var hans mesta meistaraverk. Verk þetta var samið við andlát Maríu keisaraynju Spánar árið 1603, en Victoria hafði verið hirðtónskáld hennar um áratuga skeið.

Sálumessan er samin fyrir sex radda kór og tónlistin er sérlega áhrifamikil, enda hefur verkinu verið lýst sem „einum af hápunktum endurreisnarinnar“. Söngkonan Erna Blöndal líkir verkinu við ferðalag í hæstu hæðir. „Þetta er eins og að vera komin til himnaríkis,“ segir hún, „það felur í sér óskaplega mikla slökun þótt það sé mikið fyrir haft að flytja það. Þegar maður nær tökum á tónlistinni er þetta næst því að komast til himnaríkis.“

Erna útskýrir enn fremur að verkið sé með því mest krefjandi sem söngvarar takast á við, bæði raddlega og tilfinningalega.

Auk sálumessunnar mun kórinn flytja verk sem tengjast sálumessum eftir endurreisnartónskáldin Cristóbal de Morales og Josquin des Prez.

Sálumessa Victoria var ekki aðeins tækifærisverk sem heiðraði minningu hefðarkonu því verkið er einnig svanasöngur tónskáldsins sem samdi ekki fleiri verk þau átta ár sem hann átti eftir ólifuð.

Aukinheldur er þess getið í texta er fylgir efnisskránni að breski tónlistarfræðingurinn Bruno Turner hefur kallað verkið „sálumessu fyrir 16. öldina“. Á þessum árum stóð tónlistarheimurinn á tímamótum. Þetta má til sanns vegar færa því að tónlistarheimurinn stóð á tímamótum einmitt um þetta leyti. Árið 1605, sama ár og sálumessan kom út á prenti, gaf Claudio Monteverdi út fimmtu madrígalabók sína og tveimur árum síðar var fyrsta ópera hans færð upp við hirðina í Mantova. Hinn nýi og tilfinningaþrungni barokkstíll hafði litið dagsins ljós og ekki var langt í að fjölröddun endurreisnarinnar hyrfi að mestu af sjónarsviðinu. Sálumessa Victoria er eitt síðasta meistaraverk gamla stílsins og líkt og fjöldi annarra verka frá sama skeiði býr hún enn yfir fegurð og dýpt sem snertir við okkur fjórum öldum síðar.

Kammerkórinn Carmina var stofnaður sumarið 2004 með það að markmiði að flytja kórtónlist endurreisnarinnar á Íslandi. Meðlimir kórsins eru allir þrautþjálfaðir söngvarar og hafa hlotið mikilsverða reynslu innan kóra á borð við Graduale Nobili, Hamrahlíðarkórinn, Hljómeyki, Mótettukór Hallgrímskirkju og Schola cantorum. Kórinn var valinn Tónlistarhópur Reykjavíkur 2005 og vakti mikla athygli þegar hann söng ásamt breska sönghópnum The Tallis Scholars á tónleikum í Langholtskirkju fyrir rúmu ári. Fram undan er tónleikaferð til Svíþjóðar þar sem Carmina kemur fram á Stockholm Early Music Festival, helstu tónlistarhátíð Svíþjóðar sem tileinkuð er endurreisnar- og barokktónlist.

Á tónleikunum í Kristskirkju munu fjórir söngvarar úr BBC Singers, The Tallis Scholars og Westminster Abbey-kórnum í Lundúnum slást í lið með félögum í Carminu. Stofnandi Kammerkórsins Carminu og stjórnandi á tónleikunum er Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingur og dósent við Listaháskóla Íslands.

Tónleikarnir hefjast kl. 16 báða dagana. Miðasala fer fram í 12 tónum og í safnaðarheimili Kristskirkju fyrir tónleikana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×