Fjárfestingafélögin Atorka Group hf., móðurfélag fyrirtækja á borð við Promens og Jarðboranir, og Staumborg ehf., sem er í eigu Jóns Helga Guðmundssonar, og fjölskyldu, hefur keypt meirihluta hlutafjár, 50,1 prósent, í fyrirtækinu 3X Stál á Ísafirði. Samfara kaupunum hefur nafni félagsins verið breytt í 3X Technology ehf.
Jóhann Jónasson, forstjóri 3X Technology og annar tveggja stofnenda fyrirtækisins, segir að kaupin séu lokaáfangi á stefnumótunarferli sem hófst snemma á síðasta ári. Hafi margir möguleikar verið skoðaðir en ákveðið að ganga til samninga við Atorku Group og Straumborg. Kaupverð er trúnaðarmál.
Jóhann segir nýju meirihlutaeigendurnar koma inn í félagið til að styrkja það í útrás á erlenda markaði, ekki síst í Norður-Evrópu. „Við horfum björtum augum til framtíðar og munum nýta aukinn kraft til aukinnar markaðssóknar,“ segir hann og bætir við að 3X Technology hafi verið að leiðandi fyrirtæki á sviði sjávarútvegslausna á innlendum markaði. Muni fjárhagslegi styrkurinn með sölu á meirihluta í félaginu gera kleift að halda áfram á sömu braut en á meiri hraða.
Hjá 3X Technology starfa 50 manns, 45 á Ísafirði en fimm á söluskrifstofum þess í Kópavogi. .