Körfubolti

Páll Axel Vilbergsson átti stórleik gegn Keflavík

Góðir Jonathan Griffin og félagar í Grindavík reyndust nágrönnum sínum í Keflavík erfiðir í gær.
Góðir Jonathan Griffin og félagar í Grindavík reyndust nágrönnum sínum í Keflavík erfiðir í gær. MYND/Víkurfréttir

Grindavík vann í gær sanngjarnan sigur á grönnum sínum í Keflavík. Mikið var skorað í leiknum sem var hraður og skemmtilegur. Sautján stiga sigur Grindavíkur, 117-99, tryggði liðinu betri árangur í innbyrðis viðureignum liðanna. Grindavík á því enn möguleika á að stela 5. sætinu í lokaumferð Iceland Express deildarinnar á fimmtudag.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi leiks en eftir því sem á leið sigu heimamenn fram úr. Heimamenn áttu einfaldlega betri dag, gerðu færri mistök og nýttu sín tækifæri betur. Ekki skemmdi fyrir að Páll Axel Vilbergsson átti stórleik, skoraði 41 stig og hitti 8 af 10 þriggja stiga skotum sínum.

Páll Axel skoraði fyrstu ellefu stig Grindavíkur í öðrum leikhluta, 19 alls í öllum leikhlutanum, og lagði þar með grunninn að sigri heimamanna. „Þetta var furðulegur leikur," sagði Páll Axel. „Það var lítið um varnarleik og mikið skorað. En það var mjög gott að landa þessum sigri, þeir hafa ekki verið það margir í vetur."

Hann vildi lítið gera úr eigin frammistöðu. „Það skiptir ekki máli hvað ég skoraði mörg stig. Ef ég næ að leggja mitt af mörkum er ég sáttur, sama hvaða það framlag er."

En hann segist lítið hugsa um hvort Grindavík nái fimmta sætinu af Keflavík eða ekki. „Við erum fyrst og fremst að undirbúa okkur fyrir nýja keppni sem hefst eftir næsta leik. Og ég er mjög bjartsýnn fyrir þá keppni. Við erum alla vega ekki tilbúnir að leggjast niður og gefast upp. Þessi titill er í boði og við eigum jafn mikinn séns á honum og öll önnur lið í keppninni. Við stefnum á að taka þennan titil."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×