Skoðun

Er Illugi í Sjálfstæðisflokknum?

Árni Páll Árnason skrifar
Í síðustu viku benti ég hér á tvískinnung Sjálfstæðisflokksins í stóriðjumálum, sem stendur á bak við sovéskættað stjórnkerfi sem veitir orkufyrirtækjum óheftan og niðurgreiddan aðgang að auðlindum þjóðarinnar. Ég benti á að flokkurinn gæti án tafar gert tvennt til að tryggja markaðsverð á orku og styðja við umhverfisvernd: Skilyrt heimildir orkufyrirtækja til eignarnáms við virkjanir í þágu almennings og skyldað orkufyrirtæki til að afla fjár á markaðskjörum til raforkuuppbyggingar vegna stóriðju.

Illugi Gunnarsson skrifaði grein hér í blaðið á sunnudag. Þar virðist hann taka undir annað atriðið sem ég nefndi, sem sé að afnumdar verði heimildir orkufyrirtækjanna til eignarnáms vegna virkjana í þágu stóriðju. Það mun enda þýða raunhæfari verðmyndun á þeim landgæðum sem til spillis fara við virkjanir. En hann talar um þetta í óljósum vangaveltutón („Ég hef lagt til að við skoðum það vel"). Tími vangaveltna er hins vegar liðinn því orkufyrirtækin eru nú að gera orkusölusamninga á báðar hendur og undirbúa án umhugsunar að brjóta náttúruperlur undir virkjanir. Þess vegna hefur Samfylkingin lagt til tafarlaust stóriðjuhlé, meðan virkjunarkostir eru metnir út frá verndargildi. Illugi hlífir sér líka við umræðu um hitt vandamálið, sem er ótakmarkaður aðgangur opinberra orkufyrirtækja að erlendu lánsfé með ríkisábyrgð. Það felur í sér gríðarlega ríkisaðstoð til orkufyrirtækjanna og gerir þeim kleift að selja raforkuna á útsöluverði.

Því er rétt að spyrja aftur: Hver er afstaða Sjálfstæðisflokksins? Eru vangaveltur Illuga bara prívatskoðanir hans? Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn áfram að láta okkur skattborgara niðurgreiða sókn orkufyrirtækja í takmarkaðar auðlindir eða ekki? Ætlar hann áfram að koma í veg fyrir að eðlileg markaðslögmál ráði við uppbyggingu stóriðju? Er það kannski svo að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi a.m.k. að hafa tvær stefnur í orkumálum - eina fyrir Illuga og aðra fyrir Guðlaug Þór Þórðarson, formann Orkuveitu Reykjavíkur?

Höfundur er lögfræðingur og skipar 4. sætið á framboðslista Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×