Thierry Henry staðfesti nú í hádeginu að hann yrði frá út árið vegna meiðsla á hálsi. Hann sagði jafnframt að ekkert væri til í fregnum um ósætti milli hans og Arsene Wenger, knattspyrnustjóra Arsenal.
"Þessi meiðsli hafa verið að angra mig í þrjá mánuði og ég þarf að hvíla mig í mánuð eða jafnvel lengur til þess að þetta lagist. Ég finn til í taugunum í hálsinum og má rekja þessi meiðsli til álags. Eftir að hafa spilað 60 leiki á árinu hefur líkaminn sagt stopp. Ég verð að hlusta á líkamann," sagði Henry í dag.
Spurður út í meint ósætti hans og Wenger sagði Henry: "Lenti mér saman við Wenger? Nei," sagði Henry ákveðinn.
Peter Hill-Wood, stjórnarformaður Arsenal, segist hafa fullt traust á Arsene Wenger og að hann hafi sýnt góða dómgreind í gegnum tíðina. "Wenger er stjórinn og hann ræður hverjir spila og hverjir spila ekki. Við treystum honum fullkomnlega," sagði Hill-Wood.