Greiningardeild Landsbankans segir auknar vísbendingar komið fram á síðustu vikum um að fasteignamarkaðurinn sé að taka við sér eftir samdrátt lengst af á þessu ári. Vísbendingarnar eru þó fremur veikar.
Deildin segir í Vegvísi sínum í dag að sé horft á veltu á höfuðborgarsvæðinu megi engu að síður gera því skóna að botninum hafi verið náð og að veltan muni halda áfram að þokast upp á við. Ástæða er þó til að búast við að eitthvert bakslag komi í þessa þróun, því að sveiflur á fasteignamarkaðnum hafa verið miklar á síðustu misserum.
Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu jókst um fjórðung á milli vikna í síðustu viku og um 40% í vikunni á undan. Fjöldi samninga jókst talsvert og eru það ákveðnar vísbendingar um að fasteignamarkaðurinn sé að taka við sér á ný, að mati deildarinnar.
Þá segir greiningardeildin að 12 vikna meðalvelta síðustu vikna, eða frá því um miðjan september, hafi farið vaxandi, sem renni stoðum undir að fasteignamarkaðurinn sé farinn að styrkjast.