Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarformaður Bayern Munchen, vandar félögum sínum í G-14 ekki kveðjurnar í viðtali við þýska blaðið Kicker í dag og ræðst þar sérstaklega að eiganda Chelsea, Roman Abramovich. Hann segir Bayern vera að íhuga að segja sig úr G-14.
"Þegar maður skoðar hvað Roman Abramovich gerir á leikmannamarkaðnum á hverju sumri - hvernig eiga þá þýsk félög að vera samkeppnishæf? Ef Bremen nær að slá Barcelona út úr Meistaradeildinni yrði það áttunda undur veraldar. Bremen fær 23 milljónir evra í sjónvarpstekjur á meðan Barcelona fær 143 milljónir evra. Ég vona bara að Evrópusambandið stöðvi þessar öfgar hjá Abramovich og erlendum sjónvarpsstöðvum," sagði Rummenigge.
"Félögin í G-14 eru hvert og eitt bara að hugsa um sína eigin hagsmuni - það er á hreinu. Ramon Calderon (forseti Real Madrid) hugsar bara um hagsmuni síns félags og ekkert annað - og sömu sögu má segja með ensku og Ítölsku félögin og það er því mikil sjálfselska ríkjandi í samtökunum. Félögin eru ekki sammála um neitt og hugsa bara um eigin hagsmuni. Eins og staðan er í dag, hljótum við hjá Bayern að hugsa okkar gang og íhuga hvort það þjónar yfir höfuð hagsmunum okkar að vera í G-14, því ég er mjög ósáttur við þróun mála hjá samtökunum, því það eru lítil sem engin tengsl við Alþjóða- og evrópska knattspyrnusambandið," sagði Rummenigge.