Ensku úrvalsdeildarfélögin Tottenham og Blackburn höfðu ekki erindi sem erfiði í áfrýjunum sínum á rauðu spjöldin sem þeir Hossam Ghaly og Tugay fengu að líta í viðureign liðanna á sunnudaginn. Stjórar beggja liða gagnrýndu dómgæslu Phil Dowd harðlega eftir leikinn, enda má færa rök fyrir því að bæði rauðu spjöldin hafi verið ansi vafasöm.
Ghaly verður því að taka út þriggja leikja bann, en hann var sakaður um að hafa farið með olnbogann á undan sér í skallaeinvígi. Tugay fær hinsvegar aðeins eins leiks bann, en hann felldi Ghaly inni í teig og fékk dæmda á sig vítaspyrnu í kjölfarið.