Nysir UK Limited, dótturfélag Nýsis hf., hefur keypt 69 prósent hlutafjár í breska fasteignastjórnunarfélaginu Operon, sem er með samninga um fasteignastjórnun á byggingum víða um Bretland.
Í tilkynningu frá Nýsi segir að Operon reki meðal annars byggingar og veitir margvíslega stoðþjónustu í þeim fyrir bresku ríkisstjórnina, svo sem samgönguráðuneytið og utanríkisráðuneytið, skóla, sjúkrahús, skrifstofur og rannsóknastofur. Þá sinnir félagið einnig rafmagns- og lagnahönnun, verkefnisstjórnun og byggingastjórnun.
Áætluð velta félagsins í ár er um 6 milljarðar króna.
Meðeigendur Nysir UK í félaginu eru 6 helstu stjórnendur þess.
Kaupverð er trúnaðarmál en Landsbankinn vann með Nysir UK Limited að fjármögnun kaupanna.