Knattspyrnumaðurinn Hafþór Ægir Vilhjálmsson hjá ÍA er nú á leið heim frá Svíþjóð þar sem hann var til reynslu hjá liði Norrköping. Hafþór meiddist á æfingunni og þarf um viku til að jafna sig, en honum hefur verið boðið að koma aftur út þegar hann nær sér og mun hann þá væntanlega einnig fara til Noregs og reyna sig hjá Aalesund.
Vilhjálmur faðir Hafþórs, sem einnig er umboðsmaður hans, staðfesti þetta í samtali við Vísi í dag og sagði fjölda íslenskra liða hafa sett sig í samband við sig með það fyrir augum að fá Hafþór í sínar raðir, en ljóst þykir að Hafþór muni ekki leika með liði Skagamanna á næstu leiktíð.