Varnarmaðurinn Ben Thatcher hjá Manchester City sleppur með skrekkinn við lögregluákæru eftir líkamsárás sína á Pedro Mendes, leikmann Portsmout, í leik liðanna fyrir nokkrum vikum. Mendes óskaði eftir því á sínum tíma að farið yrði með málið innan knattspyrnuhreyfingarinnar og það er talið hafa orðið til þess að lögregluyfirvöld hafa nú ákveðið að blanda sér ekki í málið.
Thatcher fékk 15 leikja bann frá enska knattspyrnusambandinu fyrir fólskulega árás sína, en þarf ekki að sitja af sér nema 8 þeirra. Hann var einnig sektaður um 6 vikna laun af Manchester City.
Því er óhætt að segja að Thatcher sleppi ódýrt frá ofbeldisverknaði sínum, en hann á það aðeins drengskap fórnarlams síns að þakka að vera ekki hreinlega varpað í fangelsi.