Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea er að sögn Sky-sjónvarpsstöðvarinnar að fylgjast mjög náið með brasilíska undrabarninu Anderson hjá Porto, en sá er aðeins 17 ára gamall og er almennt álitinn besti leikmaður Suður-Ameríku á sínum aldri.
Anderson þessi hefur ekki síður verið líkt við Ronaldinho af þeirri einföldu ástæðu að þeir koma frá sömu borg í Brasilíu. Leikmaðurinn ungi hefur farið á kostum með Porto þá fáu leiki sem hann hefur spilað með liðinu síðan hann gekk í raðir þess frá Gremio í Brasilíu, en sagt er að Inter Milan og Barcelona séu einnig að fylgjast náið með honum. Frank Arnesen, sem hefur yfirumsjón með yngri leikmönnum Chelsea, var á leik Porto og CSKA Moskvu í meistaradeildinni í vikunni þar sem hann fylgdist með Anderson leika listir sínar.