HK tapaði mjög óvænt fyrir Víkingi Ólafsvík á heimavelli sínum í Kópavogi í dag, 0-1. Ósigurinn þýðir að liðið hefur enn ekki tryggt sér sæti í Landsbankadeild að ári en þeim til happs náði Fjölnir aðeins markalausu jafntefli gegn Leikni á heimavelli og því munar enn þremur stigum á liðunum þegar ein umferð er óleikin. Ósigur HK þýðir jafnframt að Fram hafnar í 1. sæti deildarinnar þrátt fyrir 1-0 tap gegn Þór á Akureyri.

Sigrarnir fyrir Þór Ak. og Víking Ólafsvík voru gríðarlega mikilvægir enda liðin í bullandi fallbaráttu. Úrslitin í dag þýða þó að liðin eiga enn möguleika á að halda sæti sínu í deildinni og eru Víkingar meira að segja komnir úr fallsæti. Haukar töpuðu á heimavelli fyrir Stjörnunni, 1-2, og eru nú í 9. sæti, með 16 stig líkt og Þór. Víkingur er með 18 stig, líkt og Leiknir og er ljóst að lokaumferðin verður gríðarlega spennandi.
Í henni mætast Haukar og Víkingur í nánast hreinum úrslitaleik um hvort liðið fellur og þá eigast við Leiknir og Þór í Breiðholtinu sem einnig getur ráðið miklu um lokaniðurstöðu deildarinnar.