Forsætisráðherra skipaði í dag Ingimund Friðriksson, aðstoðarbankastjóra, í embætti bankastjóra í Seðlabanka Íslands til sjö ára frá 1. september næstkomandi.
Í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að í dag hafi verið fallist á beiðni Jóns Sigurðssonar, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um lausn frá embætti bankastjóra Seðlabanka Íslands.
Ingimundur er fæddur 17. febrúar 1950. Hann hefur lokið MA prófi í þjóðhagfræði og starfað í Seðlabankanum fyrst 1973 og síðan frá 1975, auk þess að gegna störfum á vegum Norðurlandanna og Eystrastaltsríkjanna í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ingimundur hefur verið aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands frá 1994, auk þess að vera settur bankastjóri fyrst 2002-2003 og nú síðast til loka ágústmánaðar n.k., að því er fram kemur í fréttatilkynningunni.