Enska blaðið Daily Mail birtir í dag frétt á vefsíðu sinni um að Sir Alex Ferguson sé að fara að kaupa Eið Smára Guðjohnsen frá Chelsea fyrir 8 milljónir enska punda eða rúman milljarð íslenskra króna. Samkvæmt heimildum blaðsins vill Eiður Smári frekar spila áfram í ensku úrvalsdeildinni fremur en að fara til Spánar en vitað er af miklum áhuga Evrópumeistara Barcelona á landsliðsfyrirliðanum. Vætanlega verður gengið frá kaupunum í næstu viku.
Peningarnir sem Manchester United fengu frá Chelsea fyrir að gefa eftir Jon Obi Mikel verða samkvæmt sömu heimildum blaðsins notaðir í kaupin á Eið Smára og sér Sir Alex fyrir sér að Eiður Smári komi til með að fylla í skarð Paul Scholes á miðju Manchester United.
Chelsea keypti Eið Smára frá Bolton sumarið 2000 fyrr 5 milljónir enskra punda og er tilbúið að láta hann fara nú þar sem á leiðinni til liðsins eru kappar á borð við Michael Ballack frá Bayern Munchen og Andriy Shevchenko frá AC Milan. Eiður Smári er búinn að skora 78 mörk fyrir Chelsea á þeim sex árum sem hann hefur eytt á Stamford Bridge. Sir Alex ætlar ekki að láta Eið Smára nægja því hann er einnig á eftir þeim Mahamadou Diarra hjá Lyon og frönsku landsliðsmönnunum Franck Ribery og Patrick Vieira sem fór frá Arsenal til Juventus fyrir síðasta tímabil.