Leiðtogar Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ saka Sjálfstæðisflokkinn, sem skipar meirihluta bæjarstjórnar, um að misnota aðstöðu sína, í því skyni að afla sér fylgis í komandi bæjarstjórnarkosningum.
Þarna er átt við afturvirka lækkun fasteignagjalda til síðustu áramóta, sem bæjarbúar hafa fengið senda í ávísun, undirritaða af bæjarstjóranum sem jafnframt er oddviti Sjálfstæðisflokksins, en hann áritar ekki tékka bæjarfélagsins í öðrum tilvikum, að sögn Samfylkingarfólks.
Þá skjóti þessi sinnaskipti sjálfstæðismanna skökku við núna, í ljósi þess að við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið í ár, gerði samfylkingin einmitt tillögu um lækkun fasteignagjalda í ár, sem Sjálfstæðimenn felldu, en gera nú lækkunina að sinni.
Og um fleira er deilt í bænum því ekkert verður af sameiginlegum framboðsfundi flokkanna, eins og verið hefur fyrir kosningar, þar sem ekki náðist samkomulag um fyrirkomulag fundarins, að sögn Sjálfstæðismanna í bænum. Þeir ætla hinsvegar að efna einir til framboðsfundar í Hlégarði í kvöld.