Nokkuð fjaðrafok hefur myndast í enskum fjölmiðlum í dag eftir að norska dagblaðið Drammen Tidende birti mynd af öðrum aðstoðardómaranna í úrslitaleik meistaradeildarinnar í Barcelona-treyju í gær.
Myndin var notið til kynningar á úrslitaleiknum sem fram fer í París annað kvöld, en aðstoðardómarinn ber því við að hann hafi ætlað að láta mynda sig í búningi beggja liða - en hafi ekki átt Arsenal-treyju. Hann viðurkennir að uppátækið hafi verið heimskulegt, en neitar því alfarið að vera hliðhollur spænska liðinu á nokkurn hátt.
Dómarateymið á leiknum annað kvöld verður allt frá Noregi og aðaldómari verður Terje Hauge, en hann er einmitt maðurinn sem dæmdi leik Barcelona og Chelsea fyrr í keppninni þar sem hann vísaði Asier del Horno hjá Chelsea af velli og var langt frá því að koma sér í mjúkinn hjá Jose Mourinho fyrir vikið.