Einstaklega vönduð umfjöllun um Landsbankadeildina í knattspyrnu í sumar er komin út í sérstöku aukablaði sem fylgir helgarblaði DV í dag. Þar er að finna ítarlega samantekt á öllum liðunum í deildinni, spá fyrir sumarið, viðtöl, tölfræði og rúsínan í pylsuendanum eru glæsilegar myndir sem teknar voru af þjálfurum og leikmönnum í deildinni.
Blaðamenn íþróttadeildar DV hafa unnið hörðum höndum að þessu verkefni í um þrjár vikur og er afraksturinn nú kominn á prent. Þarna gefst áhugamönnum um íslenska boltann kjörið tækifæri til að setja sig vel inn í stöðu mála nú rétt fyrir upphaf Íslandsmótsins, en það hefst með látum um næstu helgi.