Varnarmaðurinn Ricardo Carvalho hjá Chelsea segir að Manchester United eigi ekki fræðilegan möguleika á að ná liði sínu að stigum í baráttunni um enska meistaratitilinn í vor, þó Manchester-liðið hafi verið á mikilli sigurgöngu undanfarið.
"United er á góðri siglingu núna, en liðið hefur ekki orku í að ná okkur. Mér er alveg sama þó United vinni Arsenal um helgina, titillinn er okkar og það er enginn annar að fara að ná honum af okkur. Við höfum sýnt að við erum besta liðið í úrvalsdeildinni á tveimur síðustu árum og eftir að við duttum út úr meistaradeildinni erum við staðráðnari en nokkru sinni í að vinna tvöfalt í deild og bikar. Við erum sama og búnir að tryggja okkur sigur í deildinni og nú er bara að vinna bikarinn til að sýna fólki sem hefur gagnrýnt okkur að við erum ennþá bestir," sagði Carvalho í samtali við The Sun.