Robbi Fowler, framherji Liverpool, segir að hann og leikmenn liðsins hafi fulla trú á að þeir geti náð Manchester United að stigum og krækt þar með í annað sætið í ensku úrvalsdeildinni. Góður sigur liðsins á Fulham á dögunum er ein af ástæðunum fyrir bjartsýni hans.
"Við höfum kannski ekki hátt um það, en við trúum allir að við getum komist upp fyrir United," sagði Fowler, sem skoraði fyrsta mark sitt í meira en fjögur ár fyrir Liverpool þegar liðið bustaði Fulham 5-1 miðvikudagskvöldið.
"Mörkin sem við skoruðum allir á móti Fulham hleyptu í okkur miklu sjálfstrausti eftir dapurt gengi á dögunum áður og næstu tveir leikir eiga eftir að verða okkur mjög mikilvægir," sagði Fowler, en Liverpool sækir Newcastle heim um helgina og mætir svo Birmingham í bikarnum.