Brasilíski snillingurinn Robinho hjá Real Madrid hefur gefið út aðvörun á hendur leikmönnum Arsenal og skorar á þá að vanmeta ekki styrk spænska liðsins, sem sýndi sig glögglega um daginn þegar liðið var næstum búið að vinna upp fimm marka forskot Real Zaragoza í spænska bikarnum eftir að allir höfðu afskrifað liðið.
"Arsenal er óneitanlega sterkt lið, með frábæra vörn og hættulega sóknarmenn. Við sýndum það hinsvegar gegn Zaragoza í bikarnum um daginn að við erum ekki lið sem gefst upp og við ætlum að reyna að ná upp viðlíka stemmingu í leiknum í kvöld," sagði Robinho.
"Við förum í þennan leik með það fyrir augum að komast áfram í keppninni, þetta er mjög krítískur tími fyrir Real Madrid og við viljum ekki bregðast stuðningsmönnum okkar."
Leikurinn verður í beinni útsendingu á Sýn Extra og hefst klukkan 19:30.