Knattspyrnugoðið Bobby Charlton segir að það sé útlensku leikmönnunum að kenna að leikaraskapur sé orðinn til vandræða í ensku úrvalsdeildinni í dag. Hann bendir á að áður en leikmenn af meginlandinu hafi komið inn í deildina, hafi leikaraskapur ekki þekkst.
"Ensku leikmennirnir hafa alltaf verið sannkallaðir herramenn á vellinum, en nú þykir mér sem margir þeirra séu farnir að taka leikmenn af meginlandinu til fyrirmyndar með ýmsa ósiði eins og til dæmis leikaraskap. Svoleiðis fyrirfannst ekki í enska boltanum fyrr en leikmenn af meginlandinu komu með það hingað," sagði Charlton.