Steve Staunton byrjaði sannarlega glæsilega með írska landsliðið í gær þegar hans menn burstuðu Svía 3-0 í æfingaleik á Lansdowne Road í gærkvöld. Staunton hvetur alla til að hafa báðar fætur á jörðinni þrátt fyrir sannfærandi sigur sinna manna, en segir leikinn þó gefa fyrirheit um það sem koma skal hjá landsliðinu sem tókst ekki að vinna sér sæti á HM í sumar.
"Þetta var nú hálfgert ævintýri hjá okkur í gær, en við ætlum ekki að missa okkur í of mikla bjartsýni. Ég er auðvitað ánægður með mína menn engu að síður og mér fannst baráttuandinn og leikgleðin frábær í liðinu. Ég vona svo sannarlega að þetta sé tákn um það sem koma skal hjá okkur. Ég ætla þó ekkert að ofmetnast þó vel hafi gengið hjá okkur í fyrsta leik, því við eigum klárlega eftir að ganga í gegn um erfiða tíma," sagði Staunton eftir leikinn.