Félagaskiptaglugginn í NBA deildinni lokast aðfararnótt föstudagsins og eins og búast mátti við hefur lið New York Knicks nú riðið á vaðið og fengið til sín enn eina skyttuna. Þetta er bakvörðurinn Steve Francis sem liðið fékk frá Orlando Magic og lét í staðinn þá Trevor Ariza og Penny Hardaway.
Meiningin hjá New York er að tefla leikstjórnendunum Stephon Marbury og Steve Francis fram saman í byrjunarliði New York, en Francis hefur ekki sérstaklega gott orð á sér í deildinni frekar en sumir af leikmönnum New York. Tímabilið hefur verið gríðarleg vonbrigði fyrir liðið og er það með næst lélegasta árangur allra liða í NBA þrátt fyrir að vera með langmesta launakostnaðinn, sem ekki minnkar við komu Francis sem á eftir þrjú ár og tæpar 50 milljónir dollara af samningi sínum.