Jose Mourinho segir að hann yrði sáttur ef lið hans Chelsea gerði markalaust jafntefli við Barcelona á Stamford Bridge í kvöld, en bætir við að hann sjái ekki að Barcelona standi betur að vígi þó liðið spili seinni leikinn á heimavelli sínum.
"Ég er ekki sammála því sem sumir segja, að Barcelona sé sigurstranglegra bara af því þeir eigi seinni leikinn á heimavelli. Ef síðari leikurinn fer í framlengingu, þýðir það að útiliðið fær 30 mínútur í viðbót til að skora mark á útivelli og allir vita hvað það getur verið mikilvægt. Ég er ekki að hugsa um þessar klisjur að við verðum að vinna með 2-3 mörkum heima og verðum að halda hreinu á útivelli. Þessi lið erum mjög jöfn og við komumst að því hvort liðið er betra eftir seinni leikinn. Ég mundi ekki spila sérstaklega upp á 0-0 í fyrri leiknum, en þau úrslit mundu ekki hræða mig neitt sérstaklega," sagði Mourinho.
Liðin eigast við á Stamford Bridge í kvöld og verður leikurinn að sjálfssögðu í beinni útsendingu á Sýn.