Tónlist

Seinustu á árinu

Hljómsveitin Ghost-igital, sem var nýverið tilefnd til þrennra íslenskra tónlistarverðlauna, heldur tónleika á Sirkus á miðvikudag.

Ghostigital, sem er skipuð Curver og Einari Erni, er að kynna plötu sína sem nefnist In Cod We Trust sem kom út um allan heim í mars á þessu ári. „Þetta verða seinustu tónleikarnir okkar fyrir jól. Við erum að renna í nýja plötu og erum að fara í stúdíóvinnu," segir Curver.

„Við ætlum að klára hana fyrir febrúar en hún kemur ekki út fyrr en seinna á árinu."

Hægt er að sjá nýtt myndband frá Ghost-igital við lagið Northern Lights á heimasíðunni ghostigital.com. Í laginu er bandaríski rapparinn Sensational gestasöngvari. Eftir áramót er síðan væntanlegt annað myndband frá sveitinni sem var tekið upp á neðansjávartónleikum í gömlu sundlauginni í Keflavík.

Ghostigital er sjóðheit um þessar mundir eftir mánaðarlangt tónleikaferðalag um Bandaríkin í haust þar sem sveitin hitaði upp fyrir rokksveitina The Melvins.

Tónleikarnir á Sirkus hefjast klukkan 21 og er ókeypis inn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×