"Við erum alveg rólegir yfir þessu, það virðist vera mikill áhugi á þessu starfi," sagði Brynjar Jóhannesson, framkvæmdarstjóri knattspyrnudeildar Fram, aðspurður um þjálfaramál félagsins. Ákveðið var að framlengja ekki samninginn við Ásgeir Elíasson sem stýrði Fram til sigurs í 1. deildinni í sumar og er verið að leita að manni til að stýra liðinu í Landsbankadeildinni á næsta ári.
"Það mun vonandi eitthvað skýrast á mánudaginn varðandi þessi mál," sagði Brynjar í gær en hann segir að félagið sé með þrjá þjálfara í sigtinu. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru þeir Ólafur Þórðarson og Guðjón Þórðarson tveir af þeim.